Innlent

Óbólusett börn geta veikst mikið af nýjum veiruafbrigðum

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum og smitsjúkdómum barna. Vísir/Egill

Prófessor í barnalækningum og smitsjúkdómum segir það samfélagslega ábyrgð fullorðinna að láta bólusetja börnin sín, sem geti veikst alvarlega af nýju afbrigðum veirunnar. Ljósið í myrkrinu, að börnin mundu öll sleppa vel, er slokknað. Faraldurinn er á hraðri uppleið enn á ný og það eru óbólusett börn sem halda honum uppi, segir sóttvarnalæknir.  

Af þeim tæplega 1.500 sem eru í einangrun, er um þriðjungur börn yngri en 12 ára. 171 greindust smituð innanlands í gær, helmingurinn óbólusettur og mikið til börn. Til stendur að hefja bólusetningar barna, 5 til 11 ára, fljótlega eftir áramót með efni frá Pfizer. Margir foreldrar eru efins um nauðsyn þess að bólusetja svo ung börn, vegna mögulegrar hættu á aukaverkunum og óvissu um framhaldið.

Af hverju ættum við að láta bólusetja börnin okkar? 

„Þetta er lykilspurningin í dag. Ég held að við ættum að láta bólusetja börnin okkar fyrst og fremst barnanna vegna. Þegar faraldurinn fór af stað þá veiktust börn minna en fullorðnir og urðu ekki eins hastarlega veik. Þá var ljós í myrkrinu í þessum leiðindafaraldri. Þetta hefur því miður breyst. Með Delta afbrigðinu þá sýkjast börn meira en áður, fimm sinnum meira en áður, og það eru mjög sterkar vísbendingar um að það verði ennþá meira með ómíkron afbrigðinu” segir Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og smitsjúkdómum. Hann segir það samfélagslega ábyrgð fullorðinna að láta bólusetja börnin sín. 

Alvarleg veikindi og dauðsföll meðal barna 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það séu börnin sem beri faraldurinn uppi, sem er enn á ný á hraðri uppleið. Delta afbrigðið er enn ráðandi, svo við eigum ómíkrónbylgjuna eftir.

„Það er hluti barna sem getur veikst alvarlega af Covid-19 á þessum aldri, fimm til ellefu ára. Það er ekki þannig eins og menn hafa verið að halda fram að börn á þessum aldri fái alltaf bara covid mjög vægt,” segir Þórólfur. „Það eru langflest börn sem fá sýkinguna vægt, en það eru upplýsingar um að það eru börn að leggjast inn á sjúkrahús með alvarleg einkenni og það eru dauðsföll tilkynnt af völdum COVID-19, bæði í Evrópu og í Ameríku.”

Nánast allir láta bólusetja börnin sín almennt

Börn á Íslandi eru bólusett gegn fjölda sjúkdóma: Barnaveiki, hettusótt, kikhósta, mislingum, mænusótt og stífkrampa svo dæmi séu tekin. Það er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn. Ásgeir undirstrikar að langflestir láti bólusetja börnin sín gegn þessum helstu sjúkdómum. 

„Það eru nánast allir sem þiggja þessar hefðbundnu barnabólusetningar fyrir börnin sín. Það eru frávik, en þau eru mjög fá. Þannig að við stöndum okkur mjög vel, enda eru þessir sjúkdómar horfnir,” segir hann. 

Mundi frekar vilja ný bóluefni en gömul

COVID-bóluefnin virka betur hjá börnum og segja vísindamennirnir báðir að það sé mikill ávinningur í því að koma í veg fyrir truflun á skóla og félagslífi, einangrun og skaða á andlegri heilsu barnanna. Og þó að efnin séu ný á markaðnum, liggur áratugavinna að baki þeim.

„Ég segi fyrir sjálfan mig, ef ég þarf á læknisaðstoð að halda, ef ég þarf að fá lyf eða bólusetningu eða eitthvað slíkt, þá vil ég frekar fá það nýja heldur en það gamla. Þetta er nýtt, betra og lengra þróað, þetta veldur minni aukaverkunum en gömlu bóluefnin, sem mörg hver ollu frekari aukaverkunum, þannig að þetta er á allan hátt betra,” segir Ásgeir.


Tengdar fréttir

„Fyllsta á­stæða til að hafa miklar á­hyggjur”

Sóttvarnalæknir segir faraldurinn enn á ný á greinilegri uppleið eftir smittölur gærdagsins. Delta afbrigðið er enn ráðandi hér, en spálíkan hinna Norðurlandanna gera ráð fyrir mjög erfiðum næstu vikum vegna útbreiðslu ómíkron. Óbólusettir, börn og fullorðnir, eru þau sem smitast helst hérlendis.

Mælt með að börn sem hafa fengið Covid-19 fái líka bólusetningu

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að öllum fimm til ellefu ára börnum hér á landi verði boðin bólusetning gegn Covid 19. Sjúkdómurinn geti verið alvarlegur hjá börnum á þessum aldri og bólusetning minnki líkur á langtímaáhrifum. Bólusett verður í grunnskólum landsins.

171 greindist með kórónu­veiruna í gær

171 greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Ekki hafa svo margir greinst innanlands með veiruna frá 22. nóvember. Þau tímamót urðu í gær að 20 þúsund manns hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×