Fótbolti

Hlaut tveggja ára dóm í Svíþjóð fyrir að ná sér í gult spjald

Sindri Sverrisson skrifar
Pawel Cibicki í æfingapeysu Leeds sem á er auglýsing fyrir veðmálasíðu eins og algengt er í enskum fótbolta.
Pawel Cibicki í æfingapeysu Leeds sem á er auglýsing fyrir veðmálasíðu eins og algengt er í enskum fótbolta. Getty

Sænski fótboltamaðurinn Pawel Cibicki, fyrrverandi leikmaður Leeds, hlaut í dag tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að ná sér vísvitandi í gult spjald í leik, gegn greiðslu.

Cibicki var fundinn sekur um að hafa tekið þátt í veðmálasvindli með því að fá gult spjald í leik í sænsku úrvalsdeildinni.

Cibicki fékk andvirði um 4,3 milljóna íslenskra króna sem sannað þótti að hann hefði fengið gegn því að fá gula spjaldið. Þegar skammt var til leiks voru opnaðir 27 nýir veðmálareikningar þar sem veðjað var á að Cibicki fengi spjald.

Hann hafði verið sýknaður á lægra dómsstigi í Malmö í maí en þeim dómi var áfrýjað og önnur niðurstaða fékkst í dag. Í maí hlutu tveir menn skilorðsbundinn fangelsisdóm og þurftu að greiða bætur fyrir sinn þátt í málinu, og urðu þeir þá samkvæmt Aftonbladet fyrstir til að hljóta dóm í Svíþjóð fyrir veðmálasvindl.

Cibicki var strax í maí úrskurðaður í fjögurra ára bann frá keppnisíþróttum í Svíþjóð og það bann stendur.

Cibicki hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og vildi meina að milljónirnar sem hann fékk hefðu verið lán. Hann hefur sagt frá því að hann hafi glímt við spilafíkn frá 18 ára aldri og um tíma íhugað sjálfsvíg.

Cibicki, sem er 27 ára, var leikmaður enska félagsins Leeds á árunum 2017-2020 en spilaði lítið fyrir liðið og var lánaður til Molde í Noregi, Elfsborg í Svíþjóð og ADO Den Haag í Hollandi. Síðustu tvö ár hefur hann verið leikmaður Pogon Szczecin í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×