Fótbolti

Ætlaði ekki að deyja fyrr en liðið hans hefði unnið titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edmundo Iniguez hafði ekki heilsu í að mæta á völlinn en stuðningsmenn Atlas voru búnir að bíða lengi eftir titlinum. Hér má sjá stemmninguna í stúkunni.
Edmundo Iniguez hafði ekki heilsu í að mæta á völlinn en stuðningsmenn Atlas voru búnir að bíða lengi eftir titlinum. Hér má sjá stemmninguna í stúkunni. AP/Eduardo Verdugo

Edmundo Iniguez er orðinn 91 árs gamall og hefur því lifað tímana tvenna. Hann upplifði hins vegar langþráða stund um helgina.

Atlas FC varð þá mexíkóskur meistari í fótbolta og það er óhætt að segja að það sé búið að bíða eftir þeim titli.

Iniguez var nefnilega bara kornungur maður þegar það gerðist síðast fyrir sjötíu árum. Hann hefur alla tíð verið mikill stuðningsmaður liðsins.

Atlas FC tryggði sér titilinn eftir tvo úrslitaleiki á móti León. León vann fyrri leikinn 3-2 á heimavelli sínum en Atlas þann síðari 1-0. Staðan var því jöfn en Atlas vann 4-3 í vítakeppni.

Atlas FC, sem kemur frá borginni Guadalajara, hafði ekki unnið deildina í Mexíkó síðan tímabilið 1950-51.

Það er eitthvað við þessa rauðu og svörtu á árinu 2021 því Víkingar enduðu þrjátíu ára bið sína eftir Íslandsmeistaratitlinum en Atlas spilar einnig í svörtum og rauðum búningum eins og íslensku Víkingarnir.

Edmundo Iniguez hafði sagt við fjölskyldu sína að hann ætlaði ekki að deyja fyrr en að Atlas FC myndi vinna deildina aftur.

Hér fyrir neðan má viðbrögðin hjá karlinum þegar titilinn vannst loksins um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×