Fótbolti

Amanda skoraði mark ársins | Sögð vera á leið í sterkari deild

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Amanda Andradóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Amanda Andradóttir í leik með íslenska landsliðinu. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Landsliðskonan Amanda Andradóttir átti mark ársins í norsku úrvalsdeildinni. Hún varð bikarmeistari með Vålerenga nýverið en er nú sögð vera á leið í sterkari deild.

Hin 17 ára gamla Amanda skoraði einkar glæsilegt mark í 4-0 sigri Vålerenga á Klepp á leiktíðinni. Markið var tilnefnt sem eitt af mörkum tímabilsins og nú þegar almenningur hefur lokið kosningu er ljóst að Amanda stendur uppi sem sigurvegari.

Markið má sjá hér að neðan. Það hefur sömuleiðis verið tilnefnt sem mark ársins í Noregi, í öllum keppnum. Hægt er að kjósa um það hér.

Amanda, sem verður 18 ára á næstu dögum, gekk í raðir Vålerenga fyrr á þessari leiktíð en áður lék hún með Nordsjælland í Danmörku. Hún virðist þó ekki ætla að stoppa lengi í Noregi en samkvæmt heimildum 433.is er þessi efnilegi leikmaður á leið í sterkari deild. Ekki kemur fram hvert hún er að fara.

Amanda á að baki þrjá A-landsleiki fyrir Ísland og eiga þeir eflaust eftir að verða töluvert fleiri þegar fram líða stundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×