Fótbolti

Gæti orðið einn launa­hæsti varnar­maður heims fari hann á frjálsri sölu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson í baráttunni við Antonio Rüdiger í landsleiknum gegn Þýskalandi fyrr á þessu ári.
Jón Dagur Þorsteinsson í baráttunni við Antonio Rüdiger í landsleiknum gegn Þýskalandi fyrr á þessu ári. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Antonio Rüdiger, varnarmaður Chelsea og þýska landsliðsins, verður samningslaus í sumar. Fari svo að hann fari á frjálsri sölu frá félaginu gæti hann orðið einn af launahærri varnarmönnum heims.

Hinn 28 ára gamli miðvörður hefur blómstrað síðan Thomas Tuchel tók við hjá Chelsea. Rüdiger hefur spilað nær alla leiki síðan landi hans tók við sem þjálfari félagsins og átti sinn þátt í að Chelsea varð Evrópumeistari á síðustu leiktíð.

Samningur hans er hins vegar að renna út og virðist ekki sem miðvörðurinn ætli að skrifa undir nýjan samning í Lundúnum. Hann ku horfa til höfuðborgar Spánar þar sem honum er lofað gulli og grænum skógum.

Talið er að Real Madríd sé tilbúið að borga Rüdiger tæp 400 þúsund pund á viku ef hann gerist leikmaður liðsins. Það samsvarar 69 milljónum íslenskra króna.

Það virðist ætla að verða algengara og algengara að leikmenn af þessari stærðargráðu fari frítt milli liða en Real sótti David Alaba á sama hátt á síðustu leiktíð. Hann hefur leikið í miðverði Real á þessari leiktíð og á Rüdiger eflaust að taka stöðuna við hlið hans í hjarta varnarinnar.

Aðrir leikmenn sem fóru frítt síðasta sumar voru til að mynda Lionel Messi, Gianluigi Donnarumma, Gini Wijnaldum og Sergio Ramos.

Rüdiger hefur spilað í Þýskalandi, Ítalíu og á Englandi til þessa. Svo virðist sem Spánn sé næsti viðkomustaður þessa öfluga miðvarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×