Fótbolti

Engin íslensk á topp hundrað í ár

Sindri Sverrisson skrifar
Alexia Putellas þykir sú besta í heiminum í dag.
Alexia Putellas þykir sú besta í heiminum í dag. Getty/Eric Alonso

Á meðan að Sara Björk Gunnarsdóttir er í barneignaleyfi er engin íslensk knattspyrnukona á lista The Guardian yfir 100 bestu knattspyrnukonur heims.

Það eru þjálfarar, blaðamenn og fyrrverandi leikmenn sem koma að vali breska blaðsins The Guardian á bestu knattspyrnukonum heimsins.

Sú besta árið 2021 er hin spænska Alexia Putellas sem nýverið hlaut einnig Gullknöttinn og var kjörin UEFA-leikmaður ársins. Hún var algjör lykilmaður hjá Barcelona sem vann Meistaradeild Evrópu, spænska meistaratitilinn og spænska bikarmeistaratitilinn.

Alls á Barcelona sex leikmenn á listanum yfir tíu bestu knattspyrnukonur heims. Listann má sjá hér.

Á síðasta ári var Sara Björk í 24. sæti en hún hefur verið í hléi frá fótbolta síðan í mars. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í síðasta mánuði en stefnir að því að snúa aftur til keppni á næsta ári og er með EM í Englandi í sigtinu.

Í 2. sæti yfir bestu knattspyrnukonur heims er, annað árið í röð, Vivianne Miedema úr Arsenal, sem mætti Íslandi með liði Hollands á Laugardalsvelli í september. Ísland mætir Hollandi að nýju næsta haust, þegar úrslitin ráðast í undankeppni HM.

Tíu bestu knattspyrnukonur heims árið 2021, samkvæmt kjöri The Guardian, eru:

  1. Alexia Putellas, Barcelona
  2. Vivianne Miedema, Arsenal
  3. Sam Kerr, Chelsea
  4. Caroline Graham Hansen, Barcelona
  5. Pernille Harder, Chelsea
  6. Jenni Hermoso, Barcelona
  7. Fran Kirby, Chelsea
  8. Irene Paredes, Barcelona
  9. Lieke Martens, Barcelona
  10. Aitana Bonmati, Barcelona



Fleiri fréttir

Sjá meira


×