Fótbolti

Skilur hugarfar Söru betur eftir að hafa séð Blika spila í snjóbyl

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
sarasnjór
vísir/vilhelm/getty/Giorgio Perottino

Fyrrverandi samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur segist skilja betur hugarfar hennar eftir að hafa séð Breiðablik spila í snjóbyl gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu.

Ella Mas­ar þekkir Söru vel en þær léku saman hjá Wolfsburg tímabilið 2018-19 en það var jafnframt síðasta tímabil Masars á ferlinum. Wolfsburg vann tvöfalt í Þýskalandi þetta tímabil.

Masar fylgdist með leik Breiðabliks og Real Madrid sem fór fram við vægast sagt erfiðar aðstæður á Kópavogsvelli í fyrradag. Snjó kyngdi niður á meðan leik stóð og ryðja þurfti völlinn fyrir leik og í hálfleik.

Masar var forviða á aðstæðunum en sagði í færslu á Twitter að þær skýrðu kannski hugarfar Söru og af hverju hún hefur náð jafn langt og raun ber vitni.

„Ég skil miklu betur hvaðan hugarfar Söru Bjarkar kemur núna. Þetta lítur hræðilega út, haha,“ skrifaði Masar á Twitter.

Sara er uppalin hjá Haukum en lék með Breiðabliki í tvö og hálft tímabil áður en hún hélt út í atvinnumennsku.

Sem kunnugt er eignaðist Sara sitt fyrsta barn á dögunum, soninn Rúnar Frank. Faðir hans er Árni Vilhjálmsson, leikmaður Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×