Fótbolti

Lýsti fyrsta leik sonarins fyrir United: „Þvílíkur dagur fyrir strákinn minn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Charlie Savage í viðtal eftir leik Manchester United og Young Boys. Eins og sjá má er hann býsna líkur föður sínum.
Charlie Savage í viðtal eftir leik Manchester United og Young Boys. Eins og sjá má er hann býsna líkur föður sínum. getty/Matthew Peters

Feðgarnir Robbie og Charlie Savage tóku báðir þátt í leik Manchester United og Young Boys í Meistaradeild Evrópu á Old Trafford í gær, með ólíkum hætti þó.

Charlie var í leikmannahópi United og kom inn á undir lok leiks. Robbie lýsti leiknum hins vegar á BT Sport og var að springa úr stolti þegar sonur hans fékk að koma inn á í sínum fyrsta leik fyrir aðallið United.

„Charlie Savage kemur inn á fyrir Juan Mata hjá Manchester United. Vá. Ég bjóst aldrei við að segja þessi orð hér hjá Manchester United,“ sagði Robbie þegar sonur hans kom inn á.

„Þvílíkur dagur fyrir strákinn minn. Ég er svo stoltur af honum. Þetta er frábært augnablik fyrir hann. Að koma inn á fyrir mann sem hefur unnið HM!“

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri United, leyfði mörgum ungum leikmönnum að spreyta sig í leiknum í gær, þar á meðal hinum átján ára Savage. Auk hans léku Zidane Iqbal og Tom Heaton sinn fyrsta leik fyrir United í gær. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli. United var þegar öruggt með sigur í riðlinum.

Robbie er einnig uppalinn hjá United og var hluti af 92-árganginum fræga. Hann náði hins vegar aldrei að leika fyrir aðallið United. Hann átti þó fínasta feril, lék fjölda leikja í ensku úrvalsdeildinni, varð deildarbikarmeistari með Leicester City og lék 39 landsleiki fyrir Wales.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.