Milos þjálfaði Hammarby í Svíþjóð á liðinni leiktíð en félagið endaði í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar.
Þar áður var hann aðstoðarþjálfari Rauðu Stjörnunnar í Serbíu en þangað fór hann eftir að þjálfa Mjällby í Svíþjóð.
Norski miðillinn Nettavisen telur Milos nú líklegastan til að taka við af Åge Hareide, fráfarandi þjálfara Rosenborgar. Milos var fyrst orðaður við stjórastöðuna í Þrándheimi í byrjun nóvember.
Norska stórveldið reyndi að fá Kjetil Knutsen, þjálfara Alfsons Sampsted hjá meistaraliði Bödo/Glimt en Kjetil ku hafa neitað því tilboði.
Hann er í þann mund að gera Bödo/Glimt að meisturum annað árið í röð á meðan Rosenborg er í 4. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir.
Nettavisen greindi frá nú í kvöld að Milos sé nú þegar kominn til Þrándheims til að semja við félagið.
Rosenborg-aktuelle Milojevic har reist til Trondheim https://t.co/CVCKkMwzQl
— Nettavisen Sport (@NettavisenSport) December 6, 2021
Landsliðsmiðvörðurinn fyrrverandi Hólmar Örn Eyjólfsson er leikmaður Rosenborgar. Samningur hans gildir til ársins 2023 en talið er að hann gæti verið á heimleið á nýju ári.