Fótbolti

Milos orðaður við Rosenborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Milojevic gerðist þjálfari Hamamrby í sumar.
Milos Milojevic gerðist þjálfari Hamamrby í sumar. Vísir/Vilhelm

Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks, er nú orðaður við eitt stærsta félagið í Noregi.

Rosenborg er að leita sér að nýjum þjálfara fyrir næsta tímabil en Åge Hareide hefur ákveðið að hætta.

Samkvæmt frétt norska miðilsins Nidaros þá hefur Rosenborg þegar haft samband við Milos Milojevic en hann sjálfur vildi ekkert segja þegar Fotbollskanalen hafði samband við hann.

Milos tók við liði Hammarby í júni og gerði þriggja og hálfs árs samning við sænska félagið.

Hammarby hafði rekið Stefan Billborn og sótti Milojevic, sem hafði verið aðstoðarþjálfari hjá Rauðu Stjörnunni í Serbíu.

„Ég er þjálfari Hammarby og er að einbeita mér að síðustu þremur umferðunum,“ sagði Milos Milojevic í svari við spurningu Fotbollskanalen.

Milos Milojevic er 39 ára gamall. Hann endaði fótboltaferil sinn á Íalandi og var síðan bæði aðstoðarþjálfari (2013-15) og aðalþjálfari hjá Víkingi (2015-17) áður en hann færði sig yfir til Breiðabliks (2017). Milos fór til Mjällby í Svíjóð þegar hann fékk ekki áframhaldandi samning hjá Blikum.

Það hafa verið fleiri orðaðir við starfið hjá Rosenborg og einn af þeim er Kjetil Knutsen sem er þjálfari Bodö/Glimt.

Knutsen gerði Bodö/Glimt að norskum meisturum og stýrði liðinu til stórsigurs á móti lærisveinum Jose Mourinho í Roma á dögunum. Knutsen hefur líka verið orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Norwich.

„Milos er með samning við okkur. Ég ætla því ekki að tjá mig um það sem er í gangi hjá Rosenborg,“ sagði Jesper Jansson, íþróttastjóri Hammarby, í svari við spurningu Fotbollskanalen.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.