Innlent

Þór­ólfur leggur ekki til hertar að­gerðir

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.  vísir/vilhelm

Heil­brigðis­ráð­herra segir að Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir leggi ekki til hertar að­gerðir í minnis­blaði sínu, sem hann skilaði ráð­herranum um helgina. Nýjar að­gerðir verða kynntar eftir ríkis­stjórnar­fund á morgun, í kring um há­degi.

Sjálfur segir Þór­ólfur ekki mikið svig­rúm til af­léttinga og því má búast við að hann leggi til svipaðar að­gerðir og nú eru í gildi.

Samkomutakmarkanir miðast nú við að 50 manns geti mest komið saman í einu en þó er svigrúm fyrir 500 manna viðburði ef stuðst er við hraðpróf og grímunotkun. Skemmtistaðir mega hleypa fólki inn til klukkan 22 á kvöldin en verða að lokað alveg klukkan 23.

„Ráð­herra­nefndin mun hittast í dag og ræða minnis­blaðið. Fara svona í gegn um þessar til­lögur og ræða þetta bæði í víðu sam­hengi og svona í sam­hengi við það sem við erum að reyna að halda gangandi hérna í sam­fé­laginu og hvað er ráð­lagt að gera,“ sagði Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra í sam­tali við frétta­stofu í dag.

Er sótt­varna­læknir að leggja til hertar að­gerðir?

„Nei, hann er ekki að því. En það er ó­vissa uppi um omíkron, sem gefur kannski til­efni til að anda að­eins með nefinu.“

Óvíst hvort farið verði eftir tillögum

Willum getur ekki staðfest að hann muni fara í öllu eftir tillögum sóttvarnalæknis á morgun.Vísir/Vilhelm

Er hann þá að leggja til að sömu að­gerðir verði á­fram í gildi?

„Já, ég ætla nú kannski ekki að tjá mig í neinum smá­at­riðum um til­lögurnar en það er mjög ítar­legt og gott þetta minnis­blað. Og það er líka góð tíma­lína í því um hvað við höfum verið að gera. Við eigum að geta tekið skyn­sam­leg skref út frá þessum til­lögum,“ segir Willum sem vill ekki stað­festa að hann muni fara eftir einu og öllu sem Þór­ólfur leggur til þegar hann gefur út reglu­gerðina á morgun.

„Ég ætla nú bara fyrst að heyra sjónar­miðin hjá fólki – hvar við séum stödd. En við munum sannar­lega hlusta á það sem hann hefur fram að færa í þessum til­lögum.“


Tengdar fréttir

Omíkron setur okkur í biðstöðu með samkomutakmarkanir

Sóttvarnalæknir telur ekki mikið svigrúm til tilslakana þegar núgildandi samkomutakmarkanir renna úr gildi á miðvikudag vegna óvissu um omíkron afbriðið. Niðurstöður rannsókna um virkni bóluefna gagnvart því eigi að liggja fyrir á næstunni. 101 greindist með kórónuveiruna innanlands í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.