Erlent

Fjórtán látnir í eldgosinu í Indónesíu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Björgunarmaður á svæði hulið ösku á eyjunni Java í Indónesíu.
Björgunarmaður á svæði hulið ösku á eyjunni Java í Indónesíu. Vísir / EPA

Fjórtán eru látnir og sjö er saknað eftir að fjallið Semeru á eyjunni Java í Indónesíu byrjaði að gjósa. Öskustrókurinn frá eldgosinu náði fleiri kílómetra upp í loftið.

Samkvæmt yfirvöldum hefur verið borið kennsl á tvo þeirra látnu en tæplega 100 manns hafa slasast í umbrotunum og um 1300 manns neyðst til að flýja heimili sín.

Fjallið Semeru er eitt af 45 virkum eldfjöllum á eyjunni og það hæsta. Gosið hófst um hádegisbil í gær og neyddi fjölskyldur til að flýja frá heimilum sínum eftir að risastórt öskuský dreifði ösku um allt. Nauðsynlegur búnaður hefur verið sendur í neyðarskýli þar sem fjölmargir hafast við.

Leit er hafin í nærliggjandi þorpum þar sem askan nær uppfyrir þök húsa og bílar hafa farið á kaf. Yfirvöld segja að 11 þorp á Java séu hulin ösku og að íbúar hafi slasast vegna brennandi aurs sem rennur um göturnar en árfarvegir og vegir hafa breyst í drullusvað. Í frétt BBC kemur fram að 10 manns hafi borist með aurstraumnum.

Askan og rjúkandi brak hefur gert leit erfiða og rigningarspá næstu daga gæti gert björgunarfólki enn erfiðara fyrir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×