Innlent

Úti­lokar hvorki reglu­lega örvunar­bólu­setningu né að­gerðir næstu árin

Árni Sæberg skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir okkar helstu von í baráttunni við kórónuveiruna vera að ná hjarðónæmi með náttúrulegum sýkingum. 

Í nýútkomni Læknablaði fer Þórólfur yfir stöðuna í baráttunni við Covid-19, sem hefur nú verið háð í 22 mánuði. Hann telur það raunhæfan möguleika að takast muni að komast út úr kórónufaraldrinum að mestu á næstu vikum eða mánuðum. „Hins vegar er óljóst hvort reglulega muni þurfa að gefa örvunarskammta í framtíðinni eða hvort þörf verði á nýjum bóluefnum,“ segir hann.

Þórólfur segir tvær meginleiðir vera í boði. Annars vegar að þróuð verði virk lyfjameðferð við Covid-19 og hins vegar að hjarðónæmi náist.

Vonir séu nú bundnar við að tvö lyf við Covid-19 komi á markað fljótlega en þau eru nú í skoðun hjá Lyfjastofnun Evrópu. Í skoðun sé hvort sækja eigi um undanþágu svo taka megi lyfin í notkun hér á landi. „ljóst er að lyfin munu verða dýr og einungis í boði fyrir þá sem líklegt er að veikist alvarlega af COVID-19. Einnig á eftir að koma í ljós hversu mikil virkni lyfjanna raunverulega er og hvort þau eru laus við aukaverkanir,“ segir Þórólfur.

Sem áður segir bindur Þórólfur vonir helst við að hjarðónæmi verði náð í samfélaginu. Hann segir þó að ef eitt hundrað eða færri greinist smitaðir á dag, muni taka eitt til tvö ár að ná ónæmi. „Allan þann tíma þyrftum við að búa við töluverðar takmarkanir til að missa ekki tökin á fjölda smita og jafnvel 100 smit á dag væru of mörg fyrir okkar spítalakerfi og samfélag.“

Hann segir jafnframt að mikilvægt að sé að grunnbólusetja alla og að flestir ef ekki allir þiggi örvunarbólusetningu.

„Eitt er þó ljóst að baráttunni við COVID-19 mun ekki ljúka fyrr en tekist hefur að vinna bug á faraldrinum í heiminum öllum en það getur tekið nokkur ár. Við þurfum því að vera tilbúin til að beita ýmis konar aðgerðum á næstu árum í samræmi við þróun faraldursins hér á landi og annars staðar,“ segir Þórólfur í lok greinar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.