Innlent

Kaupa lyf sem á að draga úr hættu á al­var­legum veikindum vegna Co­vid

Eiður Þór Árnason skrifar
Landspítalinn Fossvogi.
Landspítalinn Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að kaupa nýtt lyf sem þykir gefa góða raun til að draga úr hættu á alvarlegum veikindum fólks vegna Covid-19 við vissar aðstæður.

Lyfið Sotrovimab er svokallað einstofna mótefni og er framleitt af lyfjafyrirtækinu GlaxoSmithKline. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. 

Meðferð með einstofna mótefnum gagnast best þeim sem eru óbólusettir og/eða þeim sem mynda illa mótefni vegna lyfja eða sjúkdóma og er notkunin bundin við upphaf veikinda hjá þeim sem eru í aukinni hættu á að þróa með sér alvarlegan sjúkdóm. 

Til að byrja með hefur verið ákveðið að kaupa 72 skammta af lyfinu sem svokallað undanþágulyf og er það væntanlegt er til landsins síðar í þessum mánuði, að sögn ráðuneytisins. Landspítali annast framkvæmd innkaupanna.

Birtu jákvæðar niðurstöður

GlaxoSmithKline birti í gær frumniðurstöður sem benda til að lyfið virki í tilraunaglasi gegn lykilstökkbreytingum sem finna má á nýju omíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Enn á eftir að staðfesta virknina með frekari prófunum.

George Scangos, forstjóri líftæknifyrirtækisins Vir Biotechnology sem vann sömuleiðis að þróun lyfsins segir í tilkynningu að gert hafi verið ráð fyrir því að kórónuveiran kæmi til með að stökkbreytast enn frekar. Því hafi áhersla verið lögð á afmarkað svæði broddpróteinsins sem væri ólíklegra til að stökkbreytast. 

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.