Everton átti í raun aldrei roð í nágranna sína í Liverpool er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 1-4 og ljóst að sæti Rafa Benitez, þjálfara Everton, er orðið virkilega heitt.
Þó gestirnir séu með mun sterkara lið var búist við því að heimamenn gætu allavega staðið í lærisveinum Jürgen Klopp og þó staðan hafi verið 1-2 í hálfleik var um algjöra einstefnu að ræða.
Fyrirliðinn Jordan Henderson kom sínum mönnum yfir strax á níundu mínútu og tíu mínútum síðar tvöfaldaði Mohamed Salah forystu gestanna. Ákváðu þá margir stuðningsmenn heimamanna að láta sig hverfa á braut.
Það hafði því fækkað í stúkunni er Demarai Gray minnkaði muninn fyrir Everton á 38. mínútu, staðan 1-2 í hálfleik. Heimamenn stóðu í gestunum í upphafi síðari hálfleiks en Salah gerði út um allar vonir Everton með þriðja marki Liverpool á 64. mínútu.
Stundarfjórðungi síðar fullkomnaði Diogo Jota svo kvöld gestanna með fjórða marki Liverpool. Staðan 4-1 gestunum í vil og reyndust það lokatölur kvöldsins.
Enjoy that one, Reds? pic.twitter.com/YD8bGO4lKs
— Liverpool FC (@LFC) December 1, 2021
Liverpool er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig að loknum 14 umferðum, tveimur stigum minna en topplið Chelsea. Everton er sem stendur í 14. sæti með 15 stig.