Innlent

Heim­sóknum á Kvía­bryggju af­lýst vegna smitaðs gests

Kjartan Kjartansson skrifar
Fangelsið Kvíabryggja. Myndin er úr safni.
Fangelsið Kvíabryggja. Myndin er úr safni. Vísir/Egill

Öllum heimsóknum gesta í fangelsið á Kvíabryggju hefur verið aflýst næsta daga eftir að barn sem kom þangað í heimsókn á sunnudag greindist smitað af Covid-19. Einn fangi er í sóttkví og nokkrir aðrir í smitgát.

Greint var frá því að heimsóknum yrði aflýst vegna sóttvarnarráðstafana á Facebook-síðu Fangelsismálastofnunar í dag. Í samtali við Vísi segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri, að gripið hafi verið til ráðstafananna eftir að barnið greindist smitað.

Páll segir að Fangelsismálastofnun hafi reynt að gæta meðalhófs og ekki lokað alveg á heimsóknir í kórónuveirufaraldrinum síðustu mánuði. Fullorðnir gestir hafa þurft að framvísa nýlegu hraðprófi fyrri heimsókn en ekki hafa verið gerðar sömu kröfur til barna.

Á meðan beðið er niðurstaðna um hvort að veiran hafi stungið sér niður í fangelsinu er ekki tekið á móti heimsóknargestum og fangar eru ekki fluttir á milli fangelsa.

„Við bíðum þar til að það liggur endanlega fyrir hvort þetta hafi dreift sér innan fangelsisins,“ segir Páll.

Ekki er langt síðan stofnunin missti tímabundið níu fangaverði á Litla Hrauni sem ýmist greindust smitaðir af veirunni en lentu í sóttkví. Páll segir að gripið hafi verið til sömu aðgerða þá.

„Þetta hefur virkað. Það er okkar verkefni að halda þessari starfsemi órofinni, við komumst ekki hjá því, en það er líka okkar verkefni að gera vistina ekki verri eða meira íþyngjandi en nauðsynlegt er. Við erum svona að reyna að feta þennan meðalveg,“ segir fangelsismálastjóri.


Tengdar fréttir

Takmörkuð starfsemi á Litla-Hrauni vegna Covid-19 smits

Komið hefur upp Covid-19 smit meðal starfsmanna í fangelsinu Litla-Hrauni. Nokkur hópur starfsmanna er í sóttkví og ljóst að næstu daga verður starfsemi fangelsisins takmörkuð. Öllum heimsóknum gesta er frestað fram yfir helgina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.