Innlent

Auka framlag til heilbrigðismála um sextán milljarða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjármagn fyrir farsóttardeild í Fossvogi er á meðal þess sem finna má í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár.
Fjármagn fyrir farsóttardeild í Fossvogi er á meðal þess sem finna má í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Vísir/Vilhelm

Gert er ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag.

Er meðal annars gert ráð fyrir 2,6 milljarða króna framlagi til að styrkja getu Landspítalans til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum.

Reiknað er með 1,4 milljarði til kaupa á bóluefnum vegna Covid-19 og 400 milljónir fara til geðheilbrigðismála tímabundið í eitt ár.

Þá á að ráðast í opnun sex hágæslurýma sem draga eigi úr álagi á gjörgæslurýmum Landspítalans, þrjátíu nýrra endurhæfingarrýma á Landakoti og koma á fót sérstakri farsóttardeild í Fossvogi, sem lofað var fyrr á þessu ári.

Framlög til heilbrigðiskerfisins eru einnig aukin um 2,4 milljarða til að mæta fjölgun og öldrun þjóðarinnar. Framlög til byggingar nýs Landspítala aukast um 2,2 milljarða og verða alls 14,2 milljarðar á árinu og 1,4 milljarðar verður varið til byggingar eða endurbóta á hjúkrunarrýmum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók fram í kynningu hans á frumvarpinu í morgun að meira en þrjátíu prósent hækkun hafi verið á framlögum til heilbrigðismála á milli áranna 2017 til 2022. Sextán milljarða króna raunaukning yrði á árinu 2022.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×