Erlent

Myndband virðist sýna herþotu hrapa í sjóinn örskömmu eftir flugtak

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samskonar flugvél og sú sem fór í sjóinn.
Samskonar flugvél og sú sem fór í sjóinn. Lt Cdr Lindsey Waudby RN/Ministry of Defence via Getty Images)

Myndband sem virðist sýna eina af F-35 herþotu breska hersins hrapa í sjóinn eftir flugtak af flugmóðurskipinu HMS Queen Elizabeth hefur verið birt á samfélagsmiðlum.

Á myndbandinu má sjá flugvélina í flugtaki á flugbraut skipsins. Eitthvað virðist fara úrskeiðis þannig að örfáum andartökum eftir að flugvélin fer fram af flugbraut skipsins, skýtur flugmaðurinn sér úr vélinni, sem hrapar í sjóinn. Sjá má fallhlíf opnast.

Svo virðist sem að í stað þess að hraði flugvélarinnar aukist í flugtaki hafi dregið úr hraðanum, með fyrrgreindum afleiðingum.

Hver F-35 flugvél kostar um hundrað milljón pund, rúma sautján milljarða króna.

Atvikið átti sér stað fyrr í nóvember en breskir fjölmiðlar greindu þá frá því að herþota breska hersins hefði hrapað í Miðjarðarhafið við æfingar.

Svo virðist sem að umrætt myndband sé komið úr öryggismyndavélum flugmóðurskipsins. Breska varnarmálaráðuneytið vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað af BBC. Þar kemur þó fram að verið sé að leita leiða til að bjarga flaki vélarinnar.

Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að mögulegt sé að atvikið hafi átt sér stað vegna vélarábreiðu sem mögulega hafi verið skilin eftir á flugvélinni fyrir flugtak.

Rannsókn er hafin á orsökum slyssins en í frétt BBC segir að einnig megi reikna með rannsakað verði hvernig umræddu myndbandi hafi verið lekið á netið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×