Fótbolti

Put­ellas valin best í heimi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexia Putellas er besti leikmaður í heimi árið 2021.
Alexia Putellas er besti leikmaður í heimi árið 2021. EPA-EFE/YOAN VALAT

Alexia Putellas, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins, var í kvöld kosin besti leikmaður heims. Er hún því nú handhafi Gullknattarins fræga eða Ballon d‘Or-verðlaunanna.

Mikil óánægja var með tímasetningu verðlaunanna sem ákveðið var að sleppa á síðasta ári vegna kórónufaraldursins. 

Verðlaunin í ár eru tilkynnt þegar það er landsleikjahlé á deildum Evrópu en að sama skapi eru nær allar bestu knattspyrnukonur heims í verkefnum með landsliðum sínum.

Það var í raun gefið að leikmaður Barcelona myndi vinna verðlaunin enda vann magnað lið Barcelona allt sem hægt var að vinna á síðustu leiktíð. Þá hefur liðið hafið þetta tímabil af sama krafti.

Tvær af bestu fimm leikmönnum heimsins koma frá Börsungum. Ásamt sigurvegaranum Putellas var Jennifer Hermoso tilnefnd.

„Þetta er einstakt augnablik. Það er magnað að hafa samherja mína hér eftir allt sem við höfum áorkað. Þetta eru einstaklingsverðlaun en þetta er afrek liðsheildarinnar, ég vona að þið sjáið það sömu augum,“ sagði hin 27 ára gamla Putellas eftir að það var ljóst að hún væri besta knattspyrnukona í heimi.

Ásamt Putellas og Hermoso voru þær Sam Kerr, Lieke Mertens og Vivianne Miedema meðal bestu fimm leikmanna í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×