Fótbolti

Farið að hitna undir Allegri - Baulaðir af velli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Í veseni.
Í veseni. vísir/Getty

Stuðningsmenn Juventus eru allt annað en sáttir með framgöngu liðsins á tímabilinu til þessa og létu vel í sér heyra eftir 0-1 tap gegn Atalanta á heimavelli í kvöld.

Duvan Zapata skoraði úr einu marktilraun Atalanta í leiknum eftir tæplega hálftíma leik og bauluðu áhorfendur á Juventus liðið þegar það gekk til búningsherbergja í leikhléi.

Ekki var andrúmsloftið í leikslok skárra og tók steininn úr þegar aðeins fimm leikmenn Juventus gengu til harðkjarna stuðningsmanna félagsins en á meðan stærstur hluti liðsins gekk til búningsherbergja fóru þeir Matthijs de Ligt, Wojciech Szczesny, Paulo Dybala, Leonardo Bonucci og Juan Cuadrado til stuðningsmanna og báðust afsökunar á frammistöðunni.

Eftir góðan útisigur á Lazio um síðustu helgi hefur vikan verið erfið fyrir Allegri og lærisveina hans en Juventus steinlág fyrir Chelsea í Meistaradeild Evrópu um miðja viku.

Juventus er í 8.sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins skorað átján mörk í fyrstu fjórtán leikjunum. 

Allegri tók við liðinu af Andrea Pirlo í sumar en Allegri stýrði Juventus áður frá 2014-2019 og vann ítölsku deildina öll árin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.