Erlent

Sagði rússneska menn hafa ætlað að fremja valdarán í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu.
Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu. AP/Forsetaembætti Úkraínu

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að komist hafi upp um tilraun til valdaráns þar í landi. Til hafi staðið að fella ríkisstjórn hans í næstu viku og að aðilar frá Rússlandi hafi náðst á upptöku reyna að fá ríkasta auðjöfur Úkraínu til að taka þátt í valdráninu.

Selenskí gaf ekki miklar upplýsingar um málið í dag þar sem hann hélt mjög langan blaðamannafund. Bendlaði hann Rinat Akhmetov við hið meinta valdarán.

Akhmetov hefur harðneitað þessum ásökunum og segir frásögn Selenskís vera hreina lygi og segist hann bálreiður yfir því að forsetinn hafi dreift slíkri lygi um hann.

„Sem úkraínskur borgari, stærsti fjárfestir, skattgreiðandi og vinnuveitandi landsins, mun ég halda áfram að verja frjálsa Úkraínu, frjálsan efnahag, lýðræði og málfrelsi,“ sagði Akhmetov í yfirlýsingu, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Selenskí var spurður hvort hann hefði upplýsingar um það hvort yfirvöld í Rússlandi kæmu að þessu meinta valdaráni og sagðist hann ekki geta talað um það.

Kremlverjar segjast sömuleiðis enga hugmynd hafa um ásökun Selenskís og þvertaka fyrir að hafa komið að valdaránstilraun.

Gífurleg spenna er á milli Úkraínu og Rússlands um þessar mundir en Rússar eru sagðir hafa flutt nærri því hundrað þúsund hermenn að landamærum Úkraínu. Úkraínumenn hafa sömuleiðis sent hermenn að landamærunum.

Rússar innlimuðu Krímskaga af Úkraínu árið 2014 og hafa stutt við bakið á aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×