Vinicius hetjan í dramatískum sigri Real Madrid

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hinn 21 árs gamli Vinicius Jr. að springa út.
Hinn 21 árs gamli Vinicius Jr. að springa út. vísir/Getty

Það var boðið upp á dramatískar lokamínútur þegar Real Madrid fékk Sevilla í heimsókn í toppbaráttuslag í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Leikurinn byrjaði fjörlega því Rafa Mir kom gestunum yfir strax á tólftu mínútu eftir undirbúning Marcos Acuna.

Franski markahrókurinn Karim Benzema sá til þess að liðin færu með jafna stöðu í leikhléið þegar hann jafnaði metin á 32.mínútu.

Brasilíumaðurinn Vinicius Junior hefur tekið sér stærra hlutverk en áður í sóknarleik Madridarliðsins á tímabilinu og hann tryggði Real Madrid dýrmætan sigur þegar hann skoraði sigurmark leiksins skömmu fyrir leikslok eða á 87.mínútu.

Níunda mark Vinicius á tímabilinu og er hann næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar en markahæstur er liðsfélagi hans, Benzema, með ellefu mörk.

Real Madrid nú með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar en Sevilla áfram í 4.sæti, með fimm stigum minna en toppliðið.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.