Fótbolti

Sjáðu mörk Sveindísar og Berglindar gegn einu af betri liðum heims

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagna markinu sem Berglind skoraði gegn Japan, eftir sendingu Sveindísar.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagna markinu sem Berglind skoraði gegn Japan, eftir sendingu Sveindísar. Getty/Angelo Blankespoor

Ísland vann frábæran 2-0 sigur gegn Japan í vináttulandsleik í Hollandi í gær, í leik sem þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson taldi þann besta frá því að hann tók við kvennalandsliðinu í fótbolta fyrir tæpu ári síðan.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom Íslandi yfir á 14. mínútu eftir langan sprett frá miðlínunni, eftir að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hafði unnið boltann og komið honum á hana.

Sveindís lagði svo upp seinna mark Íslands fyrir Berglindi Björg Þorvaldsdóttur, eftir langa sendingu Glódísar Perlu Viggósdóttur fram völlinn, á 70. mínútu.

Mörkin og helstu atvik úr leiknum má sjá hér að neðan.

Auk markanna tveggja var Ísland nálægt því að skora þegar Agla María Albertsdóttir átti skalla rétt yfir markið á 58. mínútu. 

Japan, sem er í 13. sæti á heimslista FIFA og þar með þremur sætum ofar en Ísland, skapaði sér hins vegar engin dauðafæri.

Byrjunarlið Íslands gegn Japan: Sveindís Jane Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Sif Atladóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Agla María Albertsdóttir.Getty/Angelo Blankespoor

Íslenski hópurinn heldur nú brátt til Kýpur þar sem liðið mun spila gegn heimakonum í undankeppni HM á þriðjudaginn. Það verður síðasti leikur Íslands á þessu ári.

Leikið verður í undanriðli Íslands í dag þegar Kýpur tekur á móti Hvíta-Rússlandi, og Tékkland og Holland mætast. Ísland er í baráttu við Holland og Tékkland um tvö efstu sæti riðilsins, en efsta liðið kemst beint á HM í Ástralíu og liðið í 2. sæti í umspil.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×