Fótbolti

Sanngjarn sigur gegn sterku japönsku liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði fyrra mark Íslands í kvöld og lagði upp það seinna.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði fyrra mark Íslands í kvöld og lagði upp það seinna. VÍSIR/VILHELM

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann góðan 2-0 sigur gegn Japan í vináttulandsleik liðanna sem fram fór í Hollandi í kvöld.

Japanska liðið var meira með boltann fyrstu mínútur leiksins, en það voru þær íslensku sem voru fyrri til að brjóta ísinn.

Þar var á ferðinni Sveindís Jane Jónsdóttir, en hún kom íslensku stelpunum í 1-0 á 14. mínútu með fyrsta skoti leiksins.

Agla María Albertsdóttir var nálægt því að koma Íslandi í 2-0 eftir tæplega hálftíma leik, en skot hennar hafnaði í þverslánni. Staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Svipaða sögu er að segja af seinni hálfleik. Japanska liðið var meira með boltann, en átti erfitt með að skapa sér opin marktækifæri.

Íslensku stelpurnar tvöfölduðu svo forystu sína þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka. Þá átti Sveindís Jane flottan sprett upp völlinn, og þéttingsföst fyrirgjöf hennar fann Berglindi Björg Þorvaldsdóttir sem stýrði boltanum í netið.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og íslensku stelpurnar fögnuðu því góðum 2-0 sigri í Hollandi. Leiknum var streymt í beinni útsendingu, og hægt er að horfa á hann aftur í spilaranum hér fyrir neðan.

Þetta var næstsíðasti leikur Íslands á árinu. Sá síðasti er gegn Kýpverjum á Kýpur í undankeppni HM 2023 á þriðjudaginn.

Þetta var fjórði leikur Íslands og Japans frá upphafi. Japanir unnu leiki liðanna á Algarve-mótinu 2015, 2017 og 2018.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.