Fótbolti

Hné niður í leiknum gegn Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adama Traoré í leik Sherrif Tiraspol og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær.
Adama Traoré í leik Sherrif Tiraspol og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær. ap/Sergei Grits

Adama Traoé, leikmaður Sherrif Tiraspol, hné niður í leiknum gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær.

Atvikið átti sér stað á 77. mínútu. Eftir baráttu við Nacho Fernández, varnarmann Real Madrid, við hliðarlínuna hélt Traoé um brjóstið áður en hann féll til jarðar.

Malímaðurinn var sem betur fer með meðvitund. Sjúkraliðar komu honum til aðstoðar, létu hann setjast upp aftur áður en honum var hjálpað til búningsherbergja. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað amaði að Traoé.

Hann er enn einn leikmaðurinn sem hnígur niður í leik. John Fleck, leikmaður Sheffield United, hné niður í leik í ensku B-deildinni á þriðjudaginn, Sergio Agüero, leikmaður Barcelona, gerði það í síðasta mánuði sem og Emil Pálsson í leik með Sogndal í norsku B-deildinni. Þá fór Christian Eriksen í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM í sumar.

Sherrif tapaði 0-3 fyrir Real Madrid í gær og á ekki lengur möguleika á að komast í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. Liðið er þó öruggt með sæti í Evrópudeildinni. Sherrif vann fyrstu tvo leiki sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en hefur síðan þá ekki náð í stig.

Traoé, sem er 26 ára kantmaður, kom til Sherrif frá Metz í febrúar á þessu ári. Hann hefur leikið 36 leiki fyrir landslið Malí og skorað sjö mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.