GPS-mælingar sýna að íshellan ofan á Grímsvötnum er byrjuð að síga sem bendir fastlega til að hlaup sé að hefjast.
Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að þetta þýði að vatnsgeymirinn upp í Grímsvötnum sé að fara að tæmast.
„Þá rennur vatnið undir Skeiðarárjökul og kemur fram í Gígjukvísl og rennur svo þar til sjávar og undir brúnna yfir þjóðveginn. Sérfræðingar sem við hittum í dag frá Jarðvísindastofnun og Veðurstofunni telja að þetta hlaup verði eitthvað um fimm þúsund rúmmetrar og að mannvirki sem eru á þessum stað ættu í rauninni að þola þetta áhlaup.“ Nú sé einkum fylgst með því hvort gos komi til með að fylgja jökulhlaupinu.
Eldgos í Grímsvötnum eru sprengigos þar sem öll kvikan sem kemur upp sundrast og dreifist undan vindi sem aska. Slíkt sást síðast í eldgosinu í Grímsvötnum árið 2011.
„Við búumst við því að við sjáum vatnið koma undir jökli á svona næstu einum til tveimur dögum, það gæti náð hugsanlega hámarki á svona fjórum til átta dögum og einhvern tímann í þessu ferli, eða miklu síðar eins og jarðfræðingum er tamt að segja, þá gæti komið eldgos í Grímsvötnum. En tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Björn.