Fótbolti

Í annað sinn á innan við ári sem lands­liðs­þjálfari hættir vegna á­fengis­neyslu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Jón Þór Hauksson þurftu báðir að hætta hjá KSÍ vegna áfengisneyslu í landsliðsferð.
Eiður Smári Guðjohnsen og Jón Þór Hauksson þurftu báðir að hætta hjá KSÍ vegna áfengisneyslu í landsliðsferð. vísir/jónína/vilhelm

Eiður Smári Guðjohnsen er hættur sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta. Hann er annar þjálfari A-landsliðs í fótbolta sem fær að taka pokann sinn á einu ári vegna áfengisneyslu í landsliðsferð.

Klukkan 23:30 í gær sendi KSÍ frá sér tilkynningu þess efnis að Eiður Smári myndi hætta sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins um mánaðarmótin. Uppsagnarákvæði í samningi hans var nýtt. Haft var eftir Eiði að síðasta ár hefði verið mjög krefjandi innan sem utan vallar, bæði fyrir hann og KSÍ.

Eiður Smári var á gulu spjaldi eftir að hafa fengið áminningu frá KSÍ í sumar eftir að myndband af honum í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur fór í dreifingu.

Hann fékk svo rauða spjaldið eftir að áfengisneyslu eftir síðasta leik Íslands í undankeppni HM 2022, gegn Norður-Makedóníu í Skopje. DV greindi frá.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem þjálfara A-landsliðs Íslands í fótbolta er sagt upp vegna áfengisneyslu í landsliðsferð. Í desember á síðasta ári hætti Jón Þór Hauksson sem þjálfari kvennalandsliðsins eftir að verið undir áhrifum áfengis þegar liðið fagnaði sæti á EM. 

Jón Þór viðurkenndi að hafa farið yfir strikið í samræðum sínum við leikmenn landsliðsins og sagðist hafa brugðist sem landsliðsþjálfari.

Síðasta ár hefur verið gríðarlega erfitt fyrir KSÍ. Skemmst er að minnast atburða haustsins þegar formaður og stjórn sambandsins sögðu af sér vegna ásakana um að hafa hylmt yfir meint kynferðis- og ofbeldisbrot leikmanna karlalandsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×