Fótbolti

Halda hátíðina í miðju landsliðsverkefni kvenna: „Veit ekki hver f-i þessu upp“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg var fyrsta konan til að fá Gullhnöttinn og hátíðin var stór stund fyrir hana.
Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg var fyrsta konan til að fá Gullhnöttinn og hátíðin var stór stund fyrir hana. Getty/Aurelien Meunier

Á mánudaginn kemur mun Gullhnötturinn vera afhentur til besta knattspyrnufólks heims. Karlarnir áttu þetta svið lengi einir en síðustu ár hafa konurnar fengið hinn svokallaða Ballon d’Or líka.

Það sem vekur athygli með verðlaunahátíðina að þessu sinni er að hún er haldin á versta tíma fyrir knattspyrnukonurnar.

Jú hátíðin er haldin á tíma þegar það er nokkuð ljóst að engin af knattspyrnukonunum verður í salnum.

Á mánudaginn eru þær sem koma til greina nefnilega flestar uppteknar í landsliðsverkefnum enda landsleikjagluggi kvennaliðanna í gangi.

Sænska landsliðskonan Nilla Fischer var mjög ósátt með þetta í viðtali við Sportbladet.

„Ég veit ekki hver f-i þessu upp en þetta er viðburður sem við allar eigum að geta mætt á,“ sagði Nilla Fischer.

Magdalena Eriksson er fyrirliði Chelsea og ein þeirra tuttugu knattspyrnukvenna sem er tilnefnd til verðlaunanna. Athöfnin fer fram á mánudaginn í París en kvöldið eftir er hún að spila með sænska landsliðinu á móti Slóvakíu í undankeppni HM.

„Mér finnst það mjög óheppilegt að þeim hafi ekki tekist að finna tímapunkt fyrir hátíðina sem hentar dagatali beggja kynja. Sú sem vinnur Gullhnöttinn fær ekki tækifæri til að vera á staðnum og taka á móti honum. Það er mjög leiðinlegt því þetta er stór stund á ferli hvers leikmanns,“ sagði Magdalena Eriksson.

Þetta er í þriðja sinn sem konurnar fá Gullhnöttinn frá France Football.

„Auðvitað er ég þreytt á því að hlutirnir séu alltaf svona og það er engin vafi á því að þeir ættu að finna stað og stund svo að konurnar geti mætt líka, sagði Nilla Fischer en sænska landsliðkonan vill samt horfa jákvætt fram á veginn. Hún hefur verið lengi í fremstu röð og hefur á þeim tíma orðið vitni af miklum breytingum.

„Þetta verður örugglega betra í framtíðinni. Stundum förum við tvö skref fram á við en þurfum síðan að taka eitt skref til baka. Allar breytingar taka tíma. Við erum samt á góðri leið og það má sjá á þeim breytingum sem hafa orðið hjá félögunum í Evrópu og á síðustu stórmótum sem hafa öll verið frábær. Við erum því á leið í rétt átt,“ sagði Fischer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×