Fótbolti

Þarf að greiða 440 krónur fyrir að kasta flösku í frönsku stjörnuna

Sindri Sverrisson skrifar
Dimitri Payet heldur um höfuðið á meðan að hlúð er að honum eftir flöskukastið.
Dimitri Payet heldur um höfuðið á meðan að hlúð er að honum eftir flöskukastið. Getty/John Berry

Stuðningsmaður Lyon sem kastaði vatnsflösku í höfuð Dimitri Payet á sunnudag þarf ekki að greiða háa sekt vegna málsins. Hann fær hins vegar ekki að mæta á völlinn næstu fimm árin.

Stuðningsmaðurinn, hinn 32 ára gamli Wilfried S., kastaði flösku í Payet þegar franski landsliðsmaðurinn var að taka hornspyrnu snemma í leik Lyon og Marseille. Leikurinn var blásinn af í kjölfarið.

Wilfried var í gær dæmdur til sex mánaða skilorðsbundins fangelsis og fimm ára bann frá því að mæta á knattspyrnuleiki í Frakklandi. 

Þá þarf hann að greiða táknræna sekt upp á eina evru til Payet, eina evru til Marseille, og eina evru til frönsku fótboltadeildarinnar. Samtals eru það því þrjár evrur sem jafngildir um 440 íslenskum krónum.

Samkvæmt franska miðlinum RMC Sport sagðist Wilfried aldrei hafa ætlað sér að hitta Payet í höfuðið með flöskunni. Hann bað Payet og Marseille afsökunar. 

Wilfried kvaðst hafa mætt á leiki hjá Lyon síðustu tvo áratugi. „Ég veit ekki hvað gerðist í hausnum á mér,“ sagði Wilfried sem fullyrti að hann hefði aðeins verið að reyna að skjóta Payet skelk í bringu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.