Innlent

Fimm hundruð milljóna króna deila í óvígðri sambúð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tekist er á um það hvort annar einstaklingurinn hafi átt 500 milljónir króna á erlendum bankareikning þegar fólkið var í óvígðri sambúð.
Tekist er á um það hvort annar einstaklingurinn hafi átt 500 milljónir króna á erlendum bankareikning þegar fólkið var í óvígðri sambúð. Getty Images

Hæstiréttur hefur samþykkt að taka fyrir fjárslitamál á milli tveggja einstaklinga í óvígðri sambúð, þar sem meðal annars er tekist á um hvort að annar aðilinn hafi átt hálfan milljarð á erlendum bankareikningum.

Meðal ágreiningsefna í málinu er sú krafa annars aðilans að við fjárslitin verði lagt til grundvallar að hinn aðilinn hafi á viðmiðunardegi skipta átt fimm hundruð milljónir króna á erlendum bankareikningum.

Kröfunni var hafnað í héraðsdómi í sumar en tekin til greina í Landsrétti. Í úrskurði Landsréttar kom fram að skiptastjóri hefði ítrekað skorað á þann sem sagður er eiga erlendu bankareikningana að leggja fram yfirlit um slíka reikninga í hans nafni í erlendum bönkum.

Hann hafi hins vegar vanrækt að verða við þeim áskorunum þótt hann hafi viðurkennt tilvist slíkra reikninga. Féllst Landsréttur því á kröfuna um að lagt yrði til grundvallar að viðkomandi hefði átt 500 milljónir króna á erlendum bankareikningi á viðmiðunardegi skipta.

Þessari niðurstöðu skaut viðkomandi hins vegar til Hæstaréttar og óskað eftir leyfi til að áfrýja niðurstöðu Landsréttar. Í rökstuðningi til Hæstaréttar segir hann meðal annars að mikilsverðir almannahagsmunir felist í því að endanleg dómsniðurstaða byggi ekki á röngum upplýsingum. Ný gögn sem lögð hafi verið fyrir Hæstarétt sýni að innstæður hans á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta nemi ekki fyrrgreindri fjárhæð.

Þá telur hann að kæruefnið hafi fordæmisgildi um túlkun og beitingu laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að líta verði svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem byggð voru á í málskotsbeiðninni. Var beiðnin því samþykkt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.