Fótbolti

Eigendur Liverpool vilja kaupa annað íþróttafélag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 John Henry og eignkona hans Linda Pizzuti Henry eftir Meistaradeildarsigur Liverpool liðsins árið 2019.
 John Henry og eignkona hans Linda Pizzuti Henry eftir Meistaradeildarsigur Liverpool liðsins árið 2019. Getty/John Powell

Eigendur Liverpool hafa ekki verið tilbúnir að eyða mikið í nýja leikmenn síðustu árin en þeir vilja aftur á móti eignast annað íþróttafélag.

Fenway Sports Group eignarhaldsfélagið er nú sagt komið langt með það að kaupa bandaríska íshokkífélagið Pittsburgh Penguins og kaupverðið er sagt vera meira 112 milljarðar íslenskra króna.

John W. Henry stofnaði eignarhaldsfélagið fyrir tveimur áratugum og þeir keyptu fyrst bandaríska hafnarboltafélagið Boston Red Sox árið 2002. Það er nú orðið eitt verðmætasta hafnarboltafélag heims.

Seinna keypti Fenway Sports Group enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool og helminginn í NASCAR félaginu Roush Fenway Racing. Félögin þrjú eru nú átta milljarða Bandaríkjadala virði.

Nýjasta félagið í hópnum gæti verið lið sem er líklegt til afreka. Pittsburgh Penguins er eitt af stóru félögunum í bandaríska íshokkíinu og hefur unnið Stanley bikarinn tvisvar á síðustu fimm árum.

Ron Burkle og fyrrum leikmaðurinn Mario Lemieux eignuðust Penguins félagið árið 1999 þegar það var við það að vera gjaldþrota. Lemieux var þá leikmaður þess sem félagið skuldaði meira en fjörutíu milljónir dollara í laun. Hann samþykkti að eignast hlut í félaginu í stað skuldarinnar.

Nú lítur út fyrir að John W Henry og félagar ætti að borga 855 milljónir Bandaríkjadala fyrir bandaríska NHL-félagið samkvæmt frétt Wall Street Journal.

Eigendurnir ætluðu sér ekki að selja félagið en tilboðið frá eigendum Liverpool virðist vera það gott að þeir séu til. Það hjálpar líka örugglega að allir yfirmenn munu halda sínum störfum og nú verðandi fyrrum eigandi, Lemieux, fær að vera áfram stjórnarformaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×