Fótbolti

18 ára Ganverji tryggði lærisveinum Mourinho langþráðan sigur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Afena-Gyan í þann mund að skora.
Afena-Gyan í þann mund að skora. vísir/Getty

Jose Mourinho batt enda á þriggja leikja hrinu AS Roma án sigurs í kvöld þegar liðið vann góðan útisigur á Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta. 

Það stefndi í markalaust jafntefli í Genóa í kvöld en á 74.mínútu skipti Mourinho hinum átján ára Felix Afena-Gyan inná og það átti eftir að reynast honum happadrjúg ákvörðun.

Þessi átján ára sóknarmaður, sem var að leika sinn þriðja leik fyrir aðallið félagsins, gerði sér lítið fyrir og gerði út um leikinn með tveimur mörkum.

Hið fyrra skoraði ungstirnið á 82.mínútu eftir undirbúning Henrikh Mkhitaryan. Afena-Gyan var svo aftur á skotskónum þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Roma lyfti sér upp í 5.sæti deildarinnar með sigrinum en hefur tíu stigum minna en topplið Napoli.

Genoa hins vegar í vandræðum í fallsæti en þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn úkraínsku goðsagnarinnar Andriy Shevchenko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×