Skilaboð dagsins eru að fólk setji á sig beltin - það tekur tvær sekúndur.
Forsetinn kvaddi sér hljóðs og bauð viðstöddum að taka þátt í einnar mínútu þögn í dag. Guðni furðar sig á að landsmenn séu ekki komnir lengra í umferðarmálum, samanber þá 25.000 Íslendinga sem ekki nota bílbelti.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands kvaðst ekki vita hvort það væri hugsunarleysi eða mótþróaröskun sem veldi því að fólk gætti ekki ýtrasta öryggis.
„Sérstaklega í sambandi við hraðakstur hvet ég fólk til þess að hugsa út í það hvað sé fengið með því að vera nokkrum mínútum fyrr á áfangastað. Ég hef tekið eftir þessu á Álftanesvegi, þar sem fólk er að taka fram úr á ofsahraða, þar sem hámarkshraðinn er 70 kílómetrar, og nær því kannski þá að vera 10-20 sekúndum fyrr að umferðarljósunum, sem eru alltaf á rauðu hvort sem er. Hvað er fólk að pæla?“
Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að á degis em þessum komi upp í huga slys sem hefðu getað farið öðru vísi:
„Það eru auðvitað þessi ótrúlega mörgu slys sem verða þar sem fólk er ekki í öryggisbeltum. Þar sem slys verða mun alvarlegri en þau hefðu þurft að vera. Það truflar mann pínulítið. Þau verða einhvern veginn svo margfalt verri þegar beltin eru ekki í notkun og fólk kastast kannski úr bílunum eða verður fyrir alvarlegri áverkum heldur en ella."
