Fótbolti

Inter fyrstir til að leggja Napoli að velli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Markaskorarar.
Markaskorarar. vísir/Getty

Inter Milan kom sér af krafti í toppbaráttuna í ítölsku úrvalsdeildinni í dag með því að verða fyrsta liðið til að leggja Napoli að velli á tímabilinu.

Napoli hefur byrjað tímabilið frábærlega og þeir komust í forystu á Giuseppe Meazza í dag þegar Piotr Zielinski skoraði eftir sautján mínútna leik.

Á 25.mínútu var vítaspyrna dæmd til heimamanna og af vítapunktinum skoraði Hakan Calhanoglu og jafnaði metin. Ivan Perisic sá svo til þess að Inter færi með forystu í leikhléið þegar hann skoraði á 44.mínútu.

Eftir klukkutíma leik kom Lautaro Martinez Inter í 3-1 og útlitið aldeilis gott fyrir lærisveina Simone Inzaghi.

Dries Mertens minnkaði muninn í 3-2 á 79.mínútu en nær komust gestirnir ekki og fyrsta tap Napoli á tímabilinu staðreynd.

Napoli áfram á toppnum með 32 stig líkt og AC Milan sem tapaði einnig sínum fyrsta leik í gær þegar AC Milan beið lægri hlut fyrir Fiorentina, 4-3.

Inter Milan hefur 28 stig í 3.sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×