Viðkomandi ökumaður var stöðvaður rétt upp úr klukkan hálf tíu í gærkvöldi, eftir að hraðamæling sýndi að hann ók á 105 kílómetra hraða á klukkustund, þar sem hámarkshraði var aðeins 60 kílómetrar. Viðkomandi var einnig kærður fyrir önnur umferðarlagabrot, til að mynda að gefa ekki stefnuljós.
„Ökumaðurinn kvaðst vera að flýta sér,“ segir í lok dagbókarfærslunnar um afskipti lögreglu af ökumanninum.
Nokkuð um akstur undir áhrifum
Lögregla setti upp umferðarpóst á Bústaðavegi í nótt þar sem athugað var með ástand ökumanna og ökutækja.
Samkvæmt dagbók lögreglu voru átta ökumenn sem stöðvaðir voru við póstinn kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Auk þeirra átta hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af níu öðrum ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum.