Innlent

Dæmdur fyrir að vista og dreifa mynd af brjósti fyrr­verandi sam­býlis­konu

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var dæmdur í sextíu daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal fresta haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.
Maðurinn var dæmdur í sextíu daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal fresta haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár. Getty

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt mann fyrir kynferðisbrot og ærumeiðingar gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni fyrir að hafa vistað mynd af brjósti konunnar og dreift sömu mynd á Snapchat og á netinu.

Í ákæru segir  að háttsemi mannsins hafi sært blygðunarsemi konunnar, móðgað hana og smánað.

Maðurinn var dæmdur í sextíu daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal fresta haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár. Maðurinn er jafnframt dæmdur til að greiða konunni 300 þúsund krónur, en konan fór fram á greiðslu 1,5 milljóna króna í miskabætur.

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi á sambandstímanum, sem stóð frá nóvember 2017 til september 2018, vistað mynd í símann sinn sem konan hafði sent honum á samskiptamiðlinum Snapchat og sýndi annað brjóst konunnar.

Þá hafi maðurinn, í desember 2018, eða eftir að sambandi þeirra lauk, sett umrædda mynd inn á ónefnda vefsíðu með skilaboðunum: „Eitthver með fleiri ?, Hún sendir ef þú biður um.“ Maðurinn hafi svo í júlí 2019 einnig sent myndina á þriðja aðila í gegnum Snapchat.

Braut gróflega gegn trúnaði konunnar

Í dómi segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að með brotum sínum hafi maðurinn brotið gróflega gegn trúnaði konunnar. „Á hinn bóginn horfir það ákærða til málsbóta að hann er með hreint sakavottorð og hefur greiðlega gengist við brotunum og fallist á bótaskyldu. Einnig ber að taka fram að mál þetta hefur dregist úr hófi, en atvik áttu sér stað í nóvember 2017 og júlí 2019 en ákæra var gefin út í apríl 2021,“ segir í dómnum.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða tvo þriðju af samtals rúmlega 1,1 milljón króna upphæð vegna þóknunar og ferðakostnaðar skipaðs verjenda og þóknunar til réttargæslumanns konunnar.

Sakarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×