Enski boltinn

Öruggt hjá Dag­nýju og West Ham | María og stöllur hentu Man City úr keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn með West Ham í öruggum 4-0 sigri í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn með West Ham í öruggum 4-0 sigri í kvöld. Getty/Warren Little

Fjöldi leikja fór fram í enska deildarbikarnum í knattspyrnu í kvöld. Dagný Brynjarsdóttir og stöllur hennar í West Ham United unnu öruggan 4-0 útisigur á Birmingham City. Manchester United vann svo 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Manchester City.

Dagný var í byrjunarliði West Ham og spilaði allan leikinn að því virðist sem framherji í 5-3-2 leikkerfi liðsins. Eftir nokkuð jafnan leik framan varð Louise Quinn fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem kom West Ham yfir. 

Skömmu síðar tvöfaldaði Claudia Walker forystuna og staðan 2-0 West Ham í vil er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Lucy Parker kom West Ham í 3-0 á 74. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Katerina Svitkova fjórða mark gestanna og staðan orðin 4-0. Reyndust það lokatölur leiksins.

Victoria Losada kom Manchester City yfir snemma leiks gegn Man United en Ivana Fuso jafnaði metin fyrir Man Utd eftir hálftíma leik. Staðan var enn 1-1 í hálfleik. 

Það var svo á 82. mínútu leiksins sem Ona Batlle skoraði sigurmark leiksins, staðan orðin 2-1 Man United í vil og það reyndust lokatölur leiksins.

María Þórisdóttir lék allan leikinn í hjarta varnar Man Utd og nældi sér í gult spjald á 82. mínútu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.