Enski boltinn

Sterling sagður vilja komast aftur til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling fagnar marki með Liverpool á árum áður.
Raheem Sterling fagnar marki með Liverpool á árum áður. Getty/John Powell

Enski landsliðsmaðurinn Raheem Sterling gæti verið á förum frá Manchester City og spænskir miðlar hafa verið mjög forvitnir um það hvort hann gæti verið á leiðinni til Barcelona.

Framtíð Sterling hjá City er í það minnsta í uppnámi en samningur hans rennur úr árið 2023 og hann hefur talað um áhuga sinn að prófa eitthvað nýtt. Flestir hafa búist við því að myndi þýða það að spila í annarri öflugri deild eins til dæmis á Spáni.

Barcelona hefur áhuga á Sterling en peningavandræði félagsins gera þeim erfitt fyrir í mögulegum viðræðum um kaupverð við City.

Sterling steig sín fyrstu alvöru spor í boltanum með Liverpool á árunum 2012 til 2015. Það fór aftur á móti ekki vel í Liverpool fólk hvernig hann yfirgaf félagið.

Nú heldur blaðamaður El Nacional því fram að Sterling vilji vera áfram í ensku úrvalsdeildinni og á óskalista hans sé að snúa aftur til Liverpool.

Liverpool þarf að bæti við sóknarmanni en þeir Sadio Mane, Roberto Firmino og Mohamed Salah eru allir að eldast auk þess að það þykir líklegt að Salah gæti yfirgefið félagið þar sem engir samningar eru þar í höfn.

Sterling er líka sagður mikill aðdáandi Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool. Hvort að City sé tilbúið að selja leikmanninn til keppinauta um titilinn er síðan allt önnur saga og í raun ólíkleg.

Það er samt athyglisvert að sjá hvernig stuðningsmenn Liverpool myndu taka því að fá aftur Raheem Sterling og hvort gömlu sárin séu gróin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×