Fótbolti

Sjálfsmark tryggði Króötum sæti á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Króatar eru á leið á HM eftir sigur gegn Rússum í dag.
Króatar eru á leið á HM eftir sigur gegn Rússum í dag. Goran Stanzl/Pixsell/MB Media/Getty Images

Króatar stálu efsta sæti H-riðils af Rússum með 1-0 sigri er liðin mættust í Króatíu í dag. Eina mark leiksins var sjálfsmark, en sigurinn tryggði Króötum sæti á Heimsmeistaramótinu í Katar á næsta ári, en Rússar þurfa að fara í gegnum umspil.

Liðin léku við erfiðar aðstæður í dag, en mikil rigning setti svip sinn á leikinn.

Króatar voru sterkari aðilinn og sóttu stíft, en erfitt reyndist að finna leið framhjá vel skipulagðri vörn Rússa.

Hvorugu liðinu tókst að brjóta ísinn í fyrri hálfleik og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Í hálfleik bætti mikið í rigninguna og því áttu liðin oft á tíðum erfitt með að spila boltanum á milli sín í seinni hálfleik.

Króatar voru þó enn líklegri aðilinn og sóttu án afláts að marki Rússa. Rússneska vörnin hélt þó vel, en heimamenn virtust þó alltaf vera að færast nær því að koma boltanum í netið.

Það var ekki fyrr en á 80. mínútu að heimamenn tóku loksins forystuna, en það var þó með hjálp gestanna. Fedor Kudryashov varð þá fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á frekar klaufalegan hátt og heimamenn því komnir 1-0 yfir.

Rússar færðu sig framar á völlinn eftir markið en tókst ekki að jafna metin og niðurstaðan því gríðarlega mikilvægur 1-0 sigur Króata.

Króatar vinna H-riðil með 23 stig og eru á leið á HM í Katar á næsta ári. Rússar enduðu með 22 stig í öðru sæti og þurfa að fara í gegnum umspil.

Þá vann Slóvakía afar sannfærandi 0-6 sigur gegn Möltu þar sem Ondrej Duda skoraði þrennu. Teddy Teuma og Ryan Camenzuli fengu báðir að líta rauða spjaldið í seinni hálfleik og heimamenn enduðu því með níu menn á vellinum.

Að lokum vann Slóvenía góðan 2-1 sigur gegn Kýpur og endar því í fjórða sæti riðilsins með 14 stig, líkt og Slóvakía, en meðp verri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×