Fótbolti

Undankeppni HM: Frakkar komnir áfram | Holland opnaði dyrnar fyrir Noreg og Tyrkland

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Kylian Mbappé skoraði fjögur í kvöld
Kylian Mbappé skoraði fjögur í kvöld EPA-EFE/IAN LANGSDON

Fjórum leikjum í evrópuhluta undankeppni heimsmeistaramótsins sem fer fram í Katar á næsta ári lauk í kvöld. Í París kjöldrógu heimamenn Kasakstan og unnu 8-0 í leik þar sem Kylian Mbappé fór á kostum.

Frakkland átti í engum vandræðum með að vinna Kasakstan og tryggja sig áfram í D-riðli undankeppninnar. Kylian Mbappé var í miklu stuði og var búinn að skora þrjú mörk í eftir einungis 32 mínútur. 3-0 í hálfleik og leikurinn í rauninni búinn.

Hinn sjóðheiti Karim Benzema skoraði næstu tvö mörk áður en Adrien Rabiot kom Frökkum í 6-0. Antoine Griezmann skoraði svo úr víti áður en Mbappé skoraði lokamarkið. 8-0 niðurstaðan og Frakkar komnir áfram.

Wales vann 5-1 sigur á Hvíta-Rússlandi á heimavelli í E-riðli og kom sér í lykilstöðu fyrir lokasprettinn í riðlinum. Aaron Ramsey og Neco Williams komu Wales yfir í fyrri hálfleik og Ramsey skoraði aftur snemma í þeim síðari. Artem Kontsevoj minnkaði muninn fyrir Hvíta Rússland áður en Ben Davies og Connor Roberts skelltu hurðina á allar endurkomuhugmyndir. Wales er í öðru sæti riðilsins, þremur stigum á undan Tékkum.

Í sama riðli vann topplið Belgíu 3-1 heimasigur á Eistum. Belgía hefur leitt riðilinn frá upphafi og eru komnir áfram á heimsmeistaramótið. Það var Christian Benteke sem kom Belgum yfir áður en Yannick Carrasco skoraði og Belgía komin í 2-0. Eric Sorga minnkaði muninn fyrir gestina úr Eystrasaltinu en Thorgan Hazard skoraði svo lokamark leiksins. 3-1 fyrir Belgíu.

Hollendingar settu óþarfa pressu á sig með því að tapa niður unnum leik í Svartfjallalandi. Memphis Depay skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og allt í túlípanablóma hjá þeim appelsínugulu. En það reyndist ekki raunin. Ilija Vukotic skoraði á 82. mínútu og svo skoraði Nikola Vujnovic á 86. mínútu. Úrslitin 2-2 og það þýðir að Norðmenn geta skotist upp fyrir Hollendinga með sigri í síðasta leik riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×