Fótbolti

Barbára Sól sneri aftur í sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barbára Sól (til hægri) kom inn af bekknum í dag.
Barbára Sól (til hægri) kom inn af bekknum í dag. Bröndby

Barbára Sól Gísladóttir sneri aftur í lið Bröndby eftir nokkurra leikja fjarveru vegna meiðsla er liðið vann 1-0 útisigur á Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Hægri bakvörðurinn hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið og því ekki leikið með Bröndby í síðustu leikjum. Barbára Sól hóf leik dagsins á varamannabekknum en eftir tæplega hálftíma leik meiddist Samara Ortiz og Selfyssingurinn leysti hana af hólmi.

Engin mörk voru þó skoruð í fyrri hálfleik og raunar var staðan markalaus allt þangað til 60 mínútur voru komnar á klukkuna. Nanna Christiansen skoraði þá með marki beint úr aukaspyrnu og reyndist það eina mark leiksins.

Undir lok leiks fékk Laerke Tingleff sitt annað gula spjald og þar með rautt í liði Nordsjælland. Sigldi Bröndby sigrinum í kjölfarið nokkuð þægilega í höfn.

Lokatölur 1-0 Bröndby í vil og Bröndby er nú komið upp í 3. sæti deildarinnar með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×