Fótbolti

Finnar í lykil­stöðu þrátt fyrir að brenna af víti og næla sér í rautt spjald

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnland vann frábæran sigur í dag.
Finnland vann frábæran sigur í dag. Kirill Kudryavtsev/Getty Images

Finnland vann góðan 3-1 útisigur á Bosníu og Hersegóvínu í undankeppni HM 2022 þrátt fyrir að klúðra víti og næla sér í rautt spjald í fyrri hálfleik. Finnar eiga því enn möguleika á að vinna D-riðil og tryggja sér sæti á HM í Katar.

Um miðbik fyrri hálfleiks fengu gestirnir vítaspyrnu. Teemu Pukki, þeirra aðalframherji, fór á vítapunktinn en spyrna hans fór forgörðum. Fjórum mínútum síðar bætti hann að vissu leyti upp fyrir mistökin er hann lagði boltann upp á Marcus Forss sem kom Finnlandi yfir.

Á 37. mínútu fékk hægri bakvörðurinn Jukka Raitala beint rautt spjald svo Finnar voru manni færri síðustu átta mínútur fyrri hálfleik sem og allan síðari hálfleikinn. Það kom ekki að sök þar sem Robin Lod kom gestunum 2-0 yfir áður en Luka Menalo minnkaði muninn þegar rúmlega tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Skömmu síðar tryggði Daniel O‘Shaughnessy 3-1 sigur Finna og kom liðinu í lykilstöðu fyrir lokaumferð undankeppni HM 2022.

Finnland er sem stendur í 2. sæti D-riðils með 11 stig að loknum sjö umferðum. Frakkland er í efsta sæti með 12 stig. Frakkar mæta Kasakstan síðar í dag áður en Finnland og Frakkland mætast í lokaumferð D-riðils þann 16. nóvember.

Á sama tíma mætir Úkraína til Bosníu og Hersegóvínu í leik þar sem gestirnir þurfa sigur til að eiga möguleika á öðru sæti og þar með sæti í umspilinu fyrir HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×