Gengi danska landsliðsins undanfarnar vikur og mánuði hefur verið hreint út sagt ótrúlegt. Liðið er með fullt hús stiga þegar ein umferð er eftir af undankeppni HM 2022 í knattspyrnu sem fram fer í Katar.
Ekki nóg með það heldur hafði liðið ekki fengið á sig mark í undankeppninni þangað til liðið tók á móti Færeyingum á Parken í Kaupmannahöfn í gærkvöld.
Danir skoruðu tiltölulega snemma leiks og gerðu í raun út um leikinn þegar rúm klukkustund var liðin. Staðan 2-0, sigurinn í höfn og það stefndi í níunda leikinn í röð án þess að liðið fengi á sig mark.
Það er þangað til varamaðurinn Klæmint Olsen, leikmaður NSÍ Runavík, minnkaði muninn á 89. mínútu leiksins. Í örskamma stund létu Færeyingar sig dreyma um jöfnunarmark en Joakim Mæhle eyðilagði þá drauma og Danir unnu 3-1 sigur.
What a moment. Pure joy. Not a phone in sight. pic.twitter.com/RmA77WlhiE
— Færøsk fodbold (@FaeroskFodbold) November 13, 2021
Danir hafa nú þegar tryggt sér sæti á HM í Katar en þeir eru með 27 stig á toppi F-riðils. Liðið hefur skorað 30 mörk og aðeins fengið á sig eitt. Danmörk sækir Skotland heim í lokaleik riðlakeppninnar en Skotar hafa nú þegar tryggt sér annað sæti riðilsins.