Fótbolti

Sjáðu mörk ís­lensku strákanna í öruggum sigri á Liechten­stein

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísland vann þægilegan 3-0 sigur á Liechtenstein ytra í gær.
Ísland vann þægilegan 3-0 sigur á Liechtenstein ytra í gær. Vísir/Bára Dröfn

Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann öruggan 3-0 sigur á Liechtenstein ytra í undankeppni EM U-21 árs landsliða í gær. Hér að neðan má sjá mörk Íslands úr leiknum.

Öll mörkin í leiknum í Eschen í dag komu á 16 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Ágúst Eðvald Hlynsson kom Íslandi yfir á 15. mínútu eftir sendingu frá Hákoni Arnari Haraldssyni. Tíu mínútum síðar lagði Ágúst Eðvald upp mark fyrir yngri bróður sinn, Kristian Nökkva.

Á 31. mínútu skoraði fyrirliðinn Brynjólfur Andersen Willumsson þriðja mark íslenska liðsins með frábæru skoti. Íslendingar létu þessi þrjú mörk duga þrátt fyrir að hafa verið í sókn nánast allan leikinn. Alls átti Ísland fjórtán skot í leiknum en Liechtenstein aðeins tvö.

Með sigrinum komst Ísland upp að hlið Kýpurs í 3. sæti D-riðils undankeppninnar. Bæði lið eru með sjö stig.

Á þriðjudaginn mætir Ísland Grikklandi í síðasta leik sínum á þessu ári. Grikkir eru í 2. sæti riðilsins með átta stig. 

Ljóst að er að Davíð Snorri Jónasson þarf að gera eina breytingu á liði sínu en markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson hefur verið kallaður upp í A-landsliðið vegna meiðsla Patriks Sigurðar Gunnarssonar.


Tengdar fréttir

Bræðurnir skoruðu í öruggum sigri Íslands

Ísland vann öruggan sigur á Liechtenstein, 0-3, í undankeppni EM U-21 árs landsliða í dag. Bræðurnir Ágúst Eðvald og Kristian Nökkvi Hlynssynir voru báðir á skotskónum.

Hákon Rafn kallaður inn í hópinn í staðin fyrir Patrik

Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Elfsborg, hefur verið kallaður inn í landsliðshóp Íslands fyrir leikinn gegn Norður-Makedóníu á sunnudaginn eftir að Patrik Sigurðuru Gunnarsson, markvörður Viking, þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×