Fótbolti

Conte: Þetta var klikkaður leikur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte lét vel í sér heyra á hliðarlínunni í sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur.
Antonio Conte lét vel í sér heyra á hliðarlínunni í sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur. Julian Finney/Getty Images

Antonio Conte, nýráðinn knattspyrnustjóri Tottenham, var hálf ringlaður eftir 3-2 sigur liðsins gegn Vitesse í Sambandsdeild Evrópu í kvöld. Hann segir að liðið þurfi að bæta sig á mörgum sviðum.

„Þetta var klikkaður leikur. Yfirleitt er ég ekki fyrir svona leiki. Klikkaður leikur þýðir að allt getur gerst. En á sama tíma fannst mér við eiga að vinna og við gerðum það,“ sagði Conte í leikslok.

„Við vorum að vinna 3-0 og fáum svo á okkur tvö mörk sem við hefðum getað komið í veg fyrir. Eftir rauða spjaldið vorum við í vandræðum. Að vinna á meðan maður þjáist er gott fyrir þetta lið og þessa leikmenn.“



Tottenham mætir Everton í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi sunnudag og Conte segir að liðið þurfi að bæta sig til að vinna þann leik.

„Þeir þurftu að bæta sjálfstraustið sitt og þeir þurftu að vinna mikið. Vandamálið er að við þurfum að finna tíma til að vinna í okkar málum. Við höfum tvo daga fram að leiknum á móti Everton og svo er landsleikjahlé.“

„Við þurfum klárlega að bæta okkur. Það er ekki auðvelt af því að við höfum bara tvo daga til að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Everton, en við höfum eiginlega bara einn dag. Það er ómögulegt að vinna með leikmönnunum sem spiluðu í kvöld á morgun. Þeir þurfa að hvíla á morgun og þá vinnum við með leikmönnunum sem spiluðu ekki.“

Hann segir að liðið þurfi að sýna þolinmæði og að þeir þurfi að leggja mikið á sig til að ná settum markmiðum.

„Við þurfum að vera þolinmóðir af því að við þurfum að vinna í mörgum hlutum, tæknilegum og líkamlegum. Ég er ekki hræddur við vinnuna sem framundan er því að ég veit að aðeins með mikilli vinnu geturðu náð mikilvægum markmiðum,“ sagði Conte að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×