Fótbolti

Alfons lagði upp er Bodø/Glimt hélt áfram að stríða Roma

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfons í baráttu við Stephan El Shaarawy í kvöld.
Alfons í baráttu við Stephan El Shaarawy í kvöld. Silvia Lore/Getty Images

Alfons Sampsted lagði upp seinna mark norksa liðsins Bodø/Glimt er liðið gerði 2-2 jafntefli gegn José Mourinho og lærisveinum hans í Roma í Sambandsdeild Evrópu í kvöld.

Eins og kannski margir muna þá unnu Alfons og félagar fyrri leik liðanna óvænt 6-1, en þar lagði Alfons einnig upp mark. 

Ola Solbakken kom Alfons og félögum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks, og staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Stephan El Shaarawy jafnaði metin fyrir heimamenn á 54. mínútu, áður en Erik Botheim kom Norðmönnunum aftur í forystu tíu mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Alfons Sampsted.

Roger Ibanez jafnaði metin fyrir Roma rúmum fimm mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Alfons og félagar halda því toppsæti C-riðils með átta stig eftir fjóra leiki, en Roma koma þar næstir með sjö stig.

Þá komu þeir Ísak Bergmann Jóhannesson og Andri Fannar Baldursson inn á sem varamenn fyrir danska liðið FC Kaupmannahöfn er liðið lagði PAOK frá Grikklandi 2-1. Kaupmannahöfn situr í efsta sæti F-riðils með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×