Innlent

„Mikil­vægt að við sjáum smit­tölur strax ganga niður“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir mögulegt að aðgerðirnar verði framlengdar ef smittölur lækka ekki eftir helgi. 
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir mögulegt að aðgerðirnar verði framlengdar ef smittölur lækka ekki eftir helgi.  Skjáskot/Stöð2

Smituðum einstaklingum fjölgar nú hratt á Akranesi og hefur bæjaráð gripið til þess ráðs að fella niður alla starfsemi í skólum á morgun. Lágmarksstarfsemi verður á öðrum stofnunum bæjarins. Bæjarstjóri segir að um sé að ræða nauðsynlega aðgerð.

Alls greindust 50 manns smitaðir af kórónuveirunni á Akranesi í gær og eru nú 75 í einangrun. Þá eru 109 einstaklingar í sóttkví. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir mikilvægt að bregðast hratt við.

„Við erum að sjá gríðarlega fjölgun smitaðra í samfélaginu hérna á Akranesi og það er að hafa veruleg áhrif á leikskóla, grunnskóla og frístundastarf þar sem eru að koma upp smit og við ætlum að bregðast við þessu,“ segir Sævar.

Leikskólum, grunnskólum, tónlistarskólum og frístundastarfi bæjarins verður lokað á morgun og var því beint til foreldra að sækja börnin sín um hádegi í dag.

Þá verður velferðarþjónusta skert, móttöku endurvinnslu lokað, heilsuefling aldraða fellur niður og endurhæfingarhúsinu Hver lokað auk þess sem íþróttaæfingar á vegum ÍA falla niður fram yfir helgi.

Það mætti þá segja að það verði að mestu lokað í samfélaginu á morgun?

„Já, það er það sem við ætlum að stuðla að og þannig munum við ná að komast í gegnum þetta,“ segir Sævar. Staðan verður síðan endurmetin reglulega um helgina.

„Auðvitað er mikilvægt að við sjáum smittölur strax ganga niður, og það er auðvitað okkar von, en ef þörf krefur þá munum við framlengja þessar ráðstafanir,“ segir Sævar.

Hann biðlar til fólks að fara áfram varlega.

„Ég hvet fólk virkilega til að sýna samstöðu eins og við þekkjum vel í þessu samfélagi, nú erum við öll í miklu meira en æfingu, við landsmenn erum búin að fá meistarapróf í hvernig eigi að vinna úr þessu. Við þekkjum þetta og við kunnum þetta.“


Tengdar fréttir

144 greindust með Covid-19 í gær

Alls greindust 144 með Covid-19 hér á landi í gær. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu. Tæplega þriðjungur þeirra sem greindust eru á Akranesi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×