Innlent

Út­lit fyrir að fram­kvæmdum á Suður­lands­vegi ljúki ári á undan á­ætlun

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi kafli Suðurlandsvegar var opnaður nýverið.
Þessi kafli Suðurlandsvegar var opnaður nýverið. Vísir/Magnús Hlynur

Útlit er fyrir að framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss muni ljúka um ári fyrir áætluð verklok. Mögulega verður hægt að opna fyrir umferð um nýja veginn næsta sumar eða haust.

G Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að um þetta leyti sé verið að opna austasta kafla vegarins, þar sem beygt er upp á Þingvelli og Þrastarlund.

„Síðan held ég að það séu mestar líkur á því að þetta verk einfaldlega klárist, þannig að það sé hægt að opna fyrir umferð næsta sumar eða haust. Það er þá ári á undan,“ sagði G. Pétur

Frá framkvæmdum á Suðurlandsvegi eða nánar tiltekið undir Ingólfsfjalli.Vísir/Vilhelm

Farið var yfir víðan völl í viðtalinu við G. Pétur. Til að mynda var talað um lokun Norðfjarðarganga, göng yfir höfuð og það að umferðin á þjóðveginum í október hafi verið sú mesta hingað til. Hlusta má á spjallið í spilaranum hér að neðan.

Norðfjarðargöngum var lokað fyrr í vikunni eftir að steypa hrundi úr lofti ganganna. Göngin eru enn lokuð að mestu leyti en flutningabílum er hleypt í gegn í hollum reglulega en hægt er að keyra minni bílum í gegnum Oddskarðsgöngin.

G. Pétur sagði að ekki ætti að hrynja úr göngum en í þessu tilviki sé laust berglag fyrir ofan göngin á þessu svæði. Vandamálið við Ísland og jarðgöng sé að jarðfræðilega séð sé landið mjög ungt.

Þetta hafi þó ekki verið mikið sem hrundi og slíkt sé mjög sjaldgæft.


Tengdar fréttir

Keppast við vegabætur áður en holskefla ferðamanna ríður yfir

Vestfirðingar gleðjast yfir því í dag að ferðabókaútgefandinn Lonely Planet hafi sett fjórðunginn í efsta sæti yfir þau svæði heims sem best sé að heimsækja á næsta ári. Ferðamanna bíða hins vegar holóttir malarvegir og einbreiðar brýr fyrir vestan og það stefnir í bið eftir næsta áfanga á Dynjandisheiði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.