Fótbolti

Fertugur Zlatan snýr aftur í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic ætlar að hjálpa Svíum að komast á HM.
Zlatan Ibrahimovic ætlar að hjálpa Svíum að komast á HM. getty/David Lidstrom

Hinn fertugi Zlatan Ibrahimovic var valinn í sænska landsliðið fyrir síðustu leiki þess í undankeppni HM 2022.

Landsliðsþjálfarinn Janne Andersson kynnti hópinn sinn í dag. Hann er skipaður 26 leikmönnum.

Þeirra á meðal er Zlatan sem sneri aftur í landsliðið fyrr á þessu ári. Hann lék tvo leiki í undankeppni HM í mars og lagði upp mark í þeim báðum. Hann er elsti leikmaðurinn sem hefur spilað fyrir sænska landsliðið.

Hnémeiðsli komu hins vegar í veg fyrir að Zlatan léki á EM í sumar. Þar komust Svíar í sextán liða úrslit.

Zlatan hefur leikið 118 landsleiki og skorað 62 mörk. Hann er markahæstur í sögu sænska landsliðsins. Hann lagði landsliðsskóna á hilluna eftir EM 2016 en gaf aftur kost á sér í landsliðið fyrir leikina í mars.

Andersson kvaðst hæstánægður með að endurheimta Zlatan sem er nýkominn aftur á ferðina með AC Milan eftir meiðsli.

„Það er frábært að hafa Zlatan. Hann hjálpaði okkur mikið í mars og gerir okkur kleift að spila svolítið öðruvísi,“ sagði Andersson.

Svíar mæta Georgíumönnum 11. nóvember og Spánverjum þremur dögum síðar. Svíþjóð er á toppi B-riðils undankeppninnar með fimmtán stig, tveimur stigum á undan Spáni. Efsta liðið í riðlinum kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil. Á síðasta heimsmeistaramóti, í Rússlandi 2018, komst Svíþjóð í átta liða úrslit.

Næsta heimsmeistaramót fer fram í Katar í desember á næsta ári. Zlatan verður þá 41 árs og ef hann tekur þátt verður hann næstelsti útileikmaðurinn í sögu HM á eftir Roger Milla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×