Fótbolti

Messi vill snúa aftur til Barcelona

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi gerði samning við PSG til tveggja ára, með möguleika á árs framlengingu.
Lionel Messi gerði samning við PSG til tveggja ára, með möguleika á árs framlengingu. Getty/Catherine Steenkeste

Þó að Lionel Messi hafi yfirgefið Barcelona í sumar og gengið í raðir PSG þá hefur hann mikinn áhuga á að starfa meira fyrir Barcelona í framtíðinni.

Messi, sem er 34 ára gamall, hafði leikið allan sinn feril hjá Barcelona þar til að félagið varð að láta hann fara í sumar vegna fjárhagsörðugleika.

Messi var í stóru viðtali við spænska blaðið Sport spurður hvort að hann myndi vilja snúa aftur til Barcelona síðar meir og svarið var einfalt:

„Já. Ég hef alltaf sagt að það yrði algjör draumur að geta hjálpað félaginu með einhverjum hætti sem gæti gagnast. Bætt einhverju við félagið,“ sagði Messi. En hvernig þá?

„Ég myndi gjarnan vilja verða íþróttastjóri þar á einhverjum tímapunkti,“ sagði Messi.

„Ég veit ekki hvort að það verður hjá Barcelona eða ekki, eða hvort það verður einhvers staðar annars staðar. En ef það er möguleiki á því þá vil ég snúa aftur og leggja mitt að mörkum því að þetta er félag sem ég elska og vil svo mikið að haldi áfram að ganga vel, haldi áfram að vaxa og sé eitt það besta í heimi,“ sagði Messi.

Ætlar að búa í Barcelona

Messi segir þó að fjölskyldan sé núna búin að koma sér vel fyrir í París og allir séu glaðir á nýjum slóðum. Hugur hans er þó áfram hjá Barcelona að einhverju leyti:

„Já. Enn í dag er það þannig þegar ég horfi á leikina að ég finn sterkar tilfinningar og man eftir hlutum sem hafa gerst á Camp Nou, með fólkinu þar,“ segir Messi. En mun hann spila aftur fyrir Barcelona eftir tvö ár, þegar samningurinn við PSG rennur út?

„Ég veit ekki hvort að ég sný aftur þegar samningurinn við PSG klárast. Það sem er þó nánast öruggt er að við munum snúa aftur til Barcelona og lifa okkar lífi þar. Það er það sem konan mín vill og ég sjálfur. Ég veit ekki hvort það gerist þegar samningurinn við PSG rennur út en við munum eiga heima í Barcelona síðar meir,“ sagði Messi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×